Minn partur í skjálftunum.

Ég er ein af þessum furðufuglum sem nánast hafði gaman af þessum skjálftum. Svaka spennandi að fylgjast með fréttum og bíða eftir seinni skjálftanum sem aldrei kom. Svo hefur maður allt í einu frábæra afsökun fyrir því að allt er í rusli. Það er ekkert heitt vatn, við þorum ekkert að setja brothætta hluti upp aftur og hlutir eru á gólfinu af því að - DÖÖÖ jarðskjálfti!
Svo eru allir svo almennilegir, hjálpsamir og duglegir eftir þetta og síminn varla stoppaði í gær.

Hér brotnaði ýmislegt og píanóið sem þurfti marga hrausta menn til að flytja inn, flutti sig sjálft um það bil 15 sentímetra frá veggnum og stendur þar enn (þar til hópur hraustra manna finnst á ný).

Það eru allir að springa úr hjálpsemi og verða eiginlega bara svekktir ef mann vantar ekki hjálp. Við systkinin fórum að fá vatn hjá hjálparsveitinni og þau hvöttu okkur af öllu hjarta til að taka nú tvær kippur.

Vissulega þykir mér sárt að heyra um þá sem virkilega urðu illa úti í skjálftanum og misstu heimili sín. Þeir hafa fullan rétt á að vera alveg í sjokki. En það er ákveðin histería í gangi hérna sem mér þykir afskaplega ó-íslensk og þeir sem misstu mest virðast afskaplega rólegir á meðan að margir aðrir eru nánast móðursjúkir yfir brotnum styttum. Nú vil ég ekki dæma neinn og þetta er ágætis skemmtun (æi þetta hljómar illkvittnislega... ^_^; ).

 Sá sem ég vorkenndi mest var litli strákurinn í fréttunum sem festist einn inni. Þar gat ég vel skilið sjokkið og hræðsluna og langaði mest að teygja mig inn í sjónvarpið og knúsa snáðann.

Mamma var reyndar líka alveg að fríka út yfir öllum litlum skjálftum og æpti oftar en ekki þegar kippir komu. Svo var bara bölvað eða hlegið (af því að ég gerði grín til að létta skapið). Svo sátum við bara úti í sólinni með kanínurnar þar til byrjaði að rigna (bara úði en maður tekur ekki sénsa með litlu dýrin).

Það fyndna var að ég svaf ekkert um nóttina af því að ég vakti yfir mömmu, litla mamma ég... Setti á NCIS og hún svaf eins og engill í gegnum öskur og byssuskot en rumskaði yfir litlum skjálftum.

Annars er allt of mikið gert úr þessu í fjölmiðlum og þeir sem ekki eru á svæðinu hafa örugglega meiri áhyggjur en þarf að hafa. Talað var við túrista sem auðvitað áttu að vera alveg í sjokki yfir íslensku jarðskjálftunum. Svo þegar að þeir voru það ekki fóru fréttamenn í væga fýlu.

Það er nefnilega ekki fréttnæmt ef að allir eru rólegir. Þetta er viss svona Amerískur "sensationalism" í gangi, þó sem betur fer vægur.

Íslandsdeild Amnesty.

Já, manni finnst maður vera hjálparvana þegar að maður les svona fréttir.

Það eina sem ég get gert er að hvetja alla sem þetta lesa til að ganga í Íslandsdeild Amnesty.  Með smá aur og þremur til sex bréfum á mánuði er hægt að bæta heiminn ótrúlega mikið, þótt að maður sé bara ein lítil manneskja. Ég tala nú ekki um ef að við látum þetta ganga. Fáum vini og fjölskyldu til að ganga í hópinn líka.

Ég er algjör innipúki og frekar félagsfælin. Svo á ég líka afskaplega lítinn pening. En það eru ekki gerðar neinar kröfur á mann þarna. 

Það er líka gaman að sjá það að bréfaskriftir hafa haft áhrif. Það eru ekki bara sorgarsögur og vondar fréttir sem að maður fær á síðunni. Hægt er að fara á tengilinn "Góðar Fréttir" og sjá hverju maður hefur áorkað í gegnum tíðina.

http://amnesty.is/

Látum okkur líf annarra varða. 


mbl.is Mannráni og barsmíðum á blaðamanni mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jibbí!

Ég legg það nú ekki í vana minn að fylgjast með stjörnunum og þeirra ástarmálum, finnst það frekar innantómt þegar að maður þekkir fólkið ekki persónulega.

En Ellen var alltaf uppáhald hjá mér og mömmu þegar að hún var með gamanþættina í sjónvarpinu og  það kom mikið á óvart þegar að hún byrjaði með bombunni Portia! Maður þekkti Ellen bara sem svona krútt rugludollu og Portia virkaði meira kaldrifjuð gella. Voðalega getur maður verið þröngsýnn!

Nú eru loksins leyfðar giftingar samkynhneigðra í California, sem er náttúrulega bara frábært (og hefði átt að gerast fyrr!) og ég vona að allt lukkist hjá þeim ef þær ganga í hnapphelduna. Held jafnvel að ég verði örlítið svekkt ef þær fylgja öllum hinum stjörnunum eftir og skilja.

 


mbl.is Ellen og Portia vilja gifta sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglumenn, vörubílstjórar, reiðir ungir menn, mótmælabörn.

Ég veit ekki hvað fer mest í taugarnar á mér, lögreglan í frethólkalegum yfirmannsstælum, liðið sem mætti til þess eins að fá útrás fyrir ofbeldishneigð sína, bloggararnir sem rakka allt og alla niður eða krakkarnir sem eru að mótmæla "Aþþíbara, skillurru?"

Þvílíkur farsi.

Ég styð atvinnubílstjóra í mótmælum sínum þótt ég sé ekki alltaf viss um að þeir séu að beita réttum aðferðum. Væri kannski sniðugra að keyra löturhægt í kringum alþingishúsið og þeyta flautur? Ég veit það ekki en ég dáist að þeim fyrir að gefa ekki upp laupana þrátt fyrir aðkast frá almenningi.

Svo eru það unglingarnir en allir sem hafa verið unglingar vita að unglingar eru vitleysingar. Þeir er ekki alveg búið að þróa með sér almenna skynsemi og þar af leiðandi gera þeir heimskulega hluti stundum. Þetta að vísu gerir þá stundum skemmtilegri en okkur eldri sem erum svo stútfull af skynsemi að við gerum aldrei neitt spennandi. Það er voðalega lítið hægt að setja út á þessa krakka sem mættu í mótmælin, þetta voru bara krakkar. Sumir voru reyndar mjög bráðþroska og vissu nákvæmlega út á hvað málið snérist en það var ekkert eins gaman að sýna þá í fréttunum.

Það voru nokkrir reiðir ungir menn (tm) í mótmælunum. Svona gæjar sem mig langar alltaf að gefa Estrógen sprautu til að róa þá niður. Þessir gæjar eru allstaðar að eyðileggja fyrir öllum og að dæma mótmælin út frá þeim er eins og að dæma alla karlmenn fyrir nauðgun. Þetta eru bara fífl, við höfum flest lent í þeim á einn hátt eða annan.

Ég hef alla tíð varið lögregluna. Þetta er erfið vinna og lágt launuð og ég hef alltaf haldið því fram að þrátt fyrir að ein og ein lögga sé spillt, þá séu þetta mest allt gott fólk. Þrátt fyrir þetta hef ég sjálf ekkert góða reynslu af löggunni. Þrisvar hef ég þurft að biðja um aðstoð frá þeim og verið verulega vonsvikin.

Þrátt fyrir þetta geri ég í því að vera glaðlynd og kurteis við lögreglumenn. Þeir fá soddan skítkast á sig frá svo mörgum að það veitir ekki af einu og einu brosi.
Mér snar brá þegar að ég sá fréttirnar og hvernig þeir létu en að vissu leyti skil ég samt hvað olli þessu fjaðrafoki. Gremja. Pjúra gremja í öllum.

Mesta sök eiga stjórnmálamenn fyrir að svelta nauðsynlegasta fólkið okkar fjárhagslega. Þar meina ég lögreglu, hjúkrunarfólk og kennara. Alltaf virðist samt vera nægur peningur fyrir peningakalla og stjórnmálamenn, þrátt fyrir kreppu yfirlýsingar. Ég hugsa það að ef að það væru fleiri lögreglumenn og betur þjálfaðir, þá væru þeir ekki eins hræddir og tortryggnir.

Sumir bloggararnir pirra mig samt kannski mest. Það er eitt að vera reiður, hræddur, þreyttur og sorgmæddur en á blogginu er allt annar tónn. Maður þarf virkilega að vera í ákveðnu skapi til að kíkja á hvað fólk er að skrifa þar sem sumum finnst þeir vera rosalega sniðugir og það liggur við að maður sjái sjálfsánægju glottið þegar þeir rakka niður mann og annan. 


Afsprengi kúgaðs þjóðfélags.

Ætli svona lagað hefði gerst ef hún hefði fengið góða kynfræðslu? Margir Bandaríkjamenn eru nú mjög sólgnir í þá hugmynd að eina getnaðarvörnin sem virki sé skírlífi. Krakkar strengja þess heit að halda "hreinleika" sínum þar til að þau giftast eða ná ákveðnum aldri. Svo byrja hormónarnir að gera þeim lífið leitt og þau sofa hjá án nokkurrar vitneskju um öryggi.

Af því að við vitum öll að það að kenna börnum á smokka er vitaskuld það sama og að segja þeim að stunda kynlíf (/sarcasm).


Hversu oft ætli þetta gerist í þeim Evrópulöndum sem telja kynlíf ekki saurugt og djöfullegt og fræða því unglinga sína um það áður en það er orðið of seint?

Þetta virðist allavega vera mjög algengt í frjálsa landinu Vestra en ég hef ekki heyrt um mörg svona dæmi hér í Skandinavíu.


mbl.is Myrti nýfætt barn sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hiti og eflaust líka þreyta.

Það finnst öllum þetta gott framtak þangað til að það snertir þá sjálfa.
Sumir hafa haft orð á því að "nú sé þetta orðið gott". En hvaða vit er í því að hætta mótmælum þegar ekkert hefur breyst?
Hvað ef þessir menn hefðu farið í verkfall í staðinn? Það hefði valdið miklu meiri óþægindum fyrir þjóðina get ég ímyndað mér.
Annars er erfitt að fara í fýlu við lögreglumenn, þeir lenda á milli steins og sleggju þarna.

Þetta er leiðindamál og ég vona að fari að rætast úr því. Bara mjög dæmigert fyrir okkur að verða fúl ef einhver dirfist að mótmæla einhverju. Við erum svo bæld, Íslendingarnir...

Hef lítið bloggað að undanförnu en ég er enn hérna að væflast stundum.
mbl.is Mikill hiti í bílstjórum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kína undirbýr sig.


Rugl.

Aumingja fólkið sem þarf á þessu að halda og lendir svo í því trekk í trekk að sú hjálp sem þeim berst stoppar útaf svona fáránlegum ástæðum.

Þetta minnir á það þegar matarsendingar stóðu á bryggju og rotnuðu í sólinni útaf einhverju  landamæraþrasi eða einhverju álíka gáfulegu á meðan að fólk var að svelta.  

Alltaf þarf að vera eitthvað svona fjandans vesen! 


mbl.is Sjúkrahús brennt til kaldra kola
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

karla og kvennaathvörf.

Mér finnst það frábært hjá Dönunum að hafa karlaathvörf og það er náttúrulega misrétti að þeim sé ekki tryggð fjármögnun. Við verðum að fara að hugsa um fólk sem fólk og hætta að falla í þessar endalausu steríótýpu gildrur.

Það er alveg ótrúlegt, þrátt fyrir allt, hvernig fólk hugsar um kynin. Karlmaður er stór og sterkur og kona er lítil og aum.
Það spáir enginn í það að það er til fullt af litlum og aumum mönnum og stórum og sterkum konum.
Fáránlegasta spurning sem ég hef séð í rifrildi um kynja jafnrétti var þessi:
"Ef þú værir inni í brennandi húsi, hvort myndir þú vilja að slökkviliðsmaðurinn sem bæri þig út væri karl eða kona?"

Ja, það fer nú eftir karlinum og konunni ekki satt? Ef karlinn væri til dæmis líkur Woody Allen og konan einhver álíka og Gyða Sól í Fóstbræðrum þá held ég að ég kjósi konuna, takk.
 
Auðvitað eru til menn sem eru beittir ofbeldi á heimilum sínum. Ekki bara samkynhneigðir menn heldur gagnkynhneigðir líka. Af konum, að hugsa sér! Já og gagnkynhneigðum mönnum er stundum nauðgað af konum líka, og flestir virðast ekki geta ímyndað sér þann raunveruleika.
Ég lenti í fáránlegu rifrildi um þessa staðreynd við fyrrverandi sem hélt því fram að það gæti ekki gerst því að karlmaður væri alltaf til í tuskið með konu... (Nota bene: fyrrverandi er karlmaður, ekki mannhatandi lesbía sem trúir öllu illu upp á karlmenn).

Þetta fannst mér afar athyglisverð tilgáta, sérstaklega með það til hliðsjónar að ég hef þekkt ekki einn heldur tvo menn sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu kvenna og voru ekkert rosa spenntir yfir þeirri staðreynd ótrúlegt nokk.
Í raun minnir þessi tilgáta (og allt tal um það hvað karlar eiga að vera sterkir) mig á færslu í bloggi prakkarans Jóns Steinars þar sem hann var að tala um að fyrsti stýrimaður hefði sagt honum að öryggismál væru fyrir kellingar og það þætti aumingjaskapur að vera með björgunarvesti!


Það er nú kannski smá von eftir fyrst að það hugarfar breyttist og menn eru núna með öryggið í fyrirrúmi, en það eru enn svona kallar og kellingar sem standa í vegi fyrir framförum í jafnréttismálum, haldandi því fram að konur eigi að vera svona og hinsegin og karlar ekki þannig eða einhvernvegin. Sem er bara verulega súrt því að allir eru ólíkir.
Það er þessi endalausa stimplun, "Þú ert bara ræfill ef þú gerir svona," og "Ertu kelling?" sem er lamin inní menn alla þeirra ævi.

En þarna kemur líka inn álitið á kvenpeningnum. Það þykir í lagi fyrir stelpu að vera strákaleg, þykir jafnvel bara töff (eins lengi og hún er samt sæt). En ef strákur er stelpulegur er hann hommi, aumingi og athlægi. Af hverju?  Er virkilega svona niðrandi að vera kona?

Það sem mér þykir samt grátbroslegt við þetta mál er að þegar kvenna athvörf hófu starfsemi sína urðu nokkrir kallar fúlir.

"Hvar eru karlaathvörfin?" spurðu þeir móðgaðir.

Konur sátu náttúrulega bara hvumsa eins og litlar gular hænur með brauðið sitt sem varla var þó nóg af fyrir þær. Áttu þær að trúa því að þessari spurningu hefði virkilega verið varpað fram? 

 Jú, konur áttu að byggja karlaathvörf líka, fyrst að þær voru að þessu á annað borð. Þessum mönnum datt ekki í hug að kannski þyrftu þeir bara að taka þær sér til fyrirmyndar og aðstoða meðbræður sína.

 

 

 


mbl.is Karlaathvörf yfirfull í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

bjútí hvín

Svona fréttir af Vestfjörðum fá mig til þess að óska þess að ég hefði aldrei flutt burt af Ísafirði, en ég var nauðbeygð til enda aðeins átta ára gömul og ekki með kosningarétt á heimilinu.

Þessi keppni var náttúrlega bara frábær og einstaklega gaman að hún skuli fá svona mikla athygli.

Annars fannst mér það grátbroslegt að hlusta á einhvern talsmann fegurðarsamkeppna tala um að fegurðarsamkeppnir snérust ekkert um að mæla fegurð. Ég veit ekki einu sinni hvar ég á að byrja að tala um þetta og get lítið gert annað en hlegið og gert svokallað "hausskrifborð" upp á Enskuna. 

*HEADDESK* Shocking


mbl.is Óbeisluð fegurð til SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband