karla og kvennaathvörf.

Mér finnst það frábært hjá Dönunum að hafa karlaathvörf og það er náttúrulega misrétti að þeim sé ekki tryggð fjármögnun. Við verðum að fara að hugsa um fólk sem fólk og hætta að falla í þessar endalausu steríótýpu gildrur.

Það er alveg ótrúlegt, þrátt fyrir allt, hvernig fólk hugsar um kynin. Karlmaður er stór og sterkur og kona er lítil og aum.
Það spáir enginn í það að það er til fullt af litlum og aumum mönnum og stórum og sterkum konum.
Fáránlegasta spurning sem ég hef séð í rifrildi um kynja jafnrétti var þessi:
"Ef þú værir inni í brennandi húsi, hvort myndir þú vilja að slökkviliðsmaðurinn sem bæri þig út væri karl eða kona?"

Ja, það fer nú eftir karlinum og konunni ekki satt? Ef karlinn væri til dæmis líkur Woody Allen og konan einhver álíka og Gyða Sól í Fóstbræðrum þá held ég að ég kjósi konuna, takk.
 
Auðvitað eru til menn sem eru beittir ofbeldi á heimilum sínum. Ekki bara samkynhneigðir menn heldur gagnkynhneigðir líka. Af konum, að hugsa sér! Já og gagnkynhneigðum mönnum er stundum nauðgað af konum líka, og flestir virðast ekki geta ímyndað sér þann raunveruleika.
Ég lenti í fáránlegu rifrildi um þessa staðreynd við fyrrverandi sem hélt því fram að það gæti ekki gerst því að karlmaður væri alltaf til í tuskið með konu... (Nota bene: fyrrverandi er karlmaður, ekki mannhatandi lesbía sem trúir öllu illu upp á karlmenn).

Þetta fannst mér afar athyglisverð tilgáta, sérstaklega með það til hliðsjónar að ég hef þekkt ekki einn heldur tvo menn sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu kvenna og voru ekkert rosa spenntir yfir þeirri staðreynd ótrúlegt nokk.
Í raun minnir þessi tilgáta (og allt tal um það hvað karlar eiga að vera sterkir) mig á færslu í bloggi prakkarans Jóns Steinars þar sem hann var að tala um að fyrsti stýrimaður hefði sagt honum að öryggismál væru fyrir kellingar og það þætti aumingjaskapur að vera með björgunarvesti!


Það er nú kannski smá von eftir fyrst að það hugarfar breyttist og menn eru núna með öryggið í fyrirrúmi, en það eru enn svona kallar og kellingar sem standa í vegi fyrir framförum í jafnréttismálum, haldandi því fram að konur eigi að vera svona og hinsegin og karlar ekki þannig eða einhvernvegin. Sem er bara verulega súrt því að allir eru ólíkir.
Það er þessi endalausa stimplun, "Þú ert bara ræfill ef þú gerir svona," og "Ertu kelling?" sem er lamin inní menn alla þeirra ævi.

En þarna kemur líka inn álitið á kvenpeningnum. Það þykir í lagi fyrir stelpu að vera strákaleg, þykir jafnvel bara töff (eins lengi og hún er samt sæt). En ef strákur er stelpulegur er hann hommi, aumingi og athlægi. Af hverju?  Er virkilega svona niðrandi að vera kona?

Það sem mér þykir samt grátbroslegt við þetta mál er að þegar kvenna athvörf hófu starfsemi sína urðu nokkrir kallar fúlir.

"Hvar eru karlaathvörfin?" spurðu þeir móðgaðir.

Konur sátu náttúrulega bara hvumsa eins og litlar gular hænur með brauðið sitt sem varla var þó nóg af fyrir þær. Áttu þær að trúa því að þessari spurningu hefði virkilega verið varpað fram? 

 Jú, konur áttu að byggja karlaathvörf líka, fyrst að þær voru að þessu á annað borð. Þessum mönnum datt ekki í hug að kannski þyrftu þeir bara að taka þær sér til fyrirmyndar og aðstoða meðbræður sína.

 

 

 


mbl.is Karlaathvörf yfirfull í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband