27.4.2008 | 19:01
Lögreglumenn, vörubílstjórar, reiðir ungir menn, mótmælabörn.
Ég veit ekki hvað fer mest í taugarnar á mér, lögreglan í frethólkalegum yfirmannsstælum, liðið sem mætti til þess eins að fá útrás fyrir ofbeldishneigð sína, bloggararnir sem rakka allt og alla niður eða krakkarnir sem eru að mótmæla "Aþþíbara, skillurru?"
Þvílíkur farsi.
Ég styð atvinnubílstjóra í mótmælum sínum þótt ég sé ekki alltaf viss um að þeir séu að beita réttum aðferðum. Væri kannski sniðugra að keyra löturhægt í kringum alþingishúsið og þeyta flautur? Ég veit það ekki en ég dáist að þeim fyrir að gefa ekki upp laupana þrátt fyrir aðkast frá almenningi.
Svo eru það unglingarnir en allir sem hafa verið unglingar vita að unglingar eru vitleysingar. Þeir er ekki alveg búið að þróa með sér almenna skynsemi og þar af leiðandi gera þeir heimskulega hluti stundum. Þetta að vísu gerir þá stundum skemmtilegri en okkur eldri sem erum svo stútfull af skynsemi að við gerum aldrei neitt spennandi. Það er voðalega lítið hægt að setja út á þessa krakka sem mættu í mótmælin, þetta voru bara krakkar. Sumir voru reyndar mjög bráðþroska og vissu nákvæmlega út á hvað málið snérist en það var ekkert eins gaman að sýna þá í fréttunum.
Það voru nokkrir reiðir ungir menn (tm) í mótmælunum. Svona gæjar sem mig langar alltaf að gefa Estrógen sprautu til að róa þá niður. Þessir gæjar eru allstaðar að eyðileggja fyrir öllum og að dæma mótmælin út frá þeim er eins og að dæma alla karlmenn fyrir nauðgun. Þetta eru bara fífl, við höfum flest lent í þeim á einn hátt eða annan.
Þrátt fyrir þetta geri ég í því að vera glaðlynd og kurteis við lögreglumenn. Þeir fá soddan skítkast á sig frá svo mörgum að það veitir ekki af einu og einu brosi.
Mér snar brá þegar að ég sá fréttirnar og hvernig þeir létu en að vissu leyti skil ég samt hvað olli þessu fjaðrafoki. Gremja. Pjúra gremja í öllum.
Mesta sök eiga stjórnmálamenn fyrir að svelta nauðsynlegasta fólkið okkar fjárhagslega. Þar meina ég lögreglu, hjúkrunarfólk og kennara. Alltaf virðist samt vera nægur peningur fyrir peningakalla og stjórnmálamenn, þrátt fyrir kreppu yfirlýsingar. Ég hugsa það að ef að það væru fleiri lögreglumenn og betur þjálfaðir, þá væru þeir ekki eins hræddir og tortryggnir.
Sumir bloggararnir pirra mig samt kannski mest. Það er eitt að vera reiður, hræddur, þreyttur og sorgmæddur en á blogginu er allt annar tónn. Maður þarf virkilega að vera í ákveðnu skapi til að kíkja á hvað fólk er að skrifa þar sem sumum finnst þeir vera rosalega sniðugir og það liggur við að maður sjái sjálfsánægju glottið þegar þeir rakka niður mann og annan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.